Lykilhugtök

Einkvæm auðkenni

Einkvæmt auðkenni er stafastrengur sem má nota til að auðkenna vafra, forrit eða tæki á einkvæman hátt. Auðkenni eru mismunandi eftir því hversu varanleg þau eru, hvort notendur geta endurstillt þau og hvernig fá má aðgang að þeim.

Einkvæm auðkenni eru notuð í ýmsum tilgangi, þ. á m. til öryggisgreiningar og til að koma upp um svindl, fyrir samstillingarþjónustu á borð við tölvupósthólfið þitt, til að muna kjörstillingarnar þínar og til að bjóða upp á sérsniðnar auglýsingar. Einkvæm auðkenni sem eru geymd í fótsporum hjálpa til dæmis vefsvæðum að birta efni í vafranum þínum á völdu tungumáli. Þú getur stillt vafrann þannig að hann útiloki öll fótspor eða hann láti vita þegar fótspor er sent. Kynntu þér nánari upplýsingar um hvernig Google notar fótspor.

Fyrir aðra vettvanga en vafra eru einkvæm auðkenni notuð til að bera kennsl á tiltekið tæki, eða forrit í tækinu sem um ræðir. Einkvæmt auðkenni eins og til dæmi auglýsingakennið er notað til að veita viðeigandi auglýsingar á Android tækjum og því má stjórna í stillingum tækisins. Framleiðandi tækisins getur einnig komið fyrir einkvæmu auðkenni (stundum kallað universally unique ID eða UUID), eins og til dæmis IMEI-númeri fyrir farsíma. Einkvæmt auðkenni tækis má til dæmis nota til að sérsníða þjónustu okkar að tækinu þínu, eða greina vandamál sem koma upp í tækinu varðandi þjónustu okkar.

Fótspor

Fótspor er lítil skrá sem inniheldur stafarunu og er send í tölvuna þína þegar þú opnar vefsvæði. Fótsporið leyfir viðkomandi vefsvæði að þekkja vafrann á ný þegar þú heimsækir vefsvæðið aftur. Fótspor geta geymt upplýsingar um kjörstillingar notandans og aðrar upplýsingar. Þú getur stillt vafrann þannig að hann útiloki öll fótspor eða hann láti vita þegar fótspor er sent. Hins vegar er möguleiki á að einhverjir eiginleikar eða þjónusta vefsvæða virki ekki eðlilega nema fótspor séu notuð. Kynntu þér nánari upplýsingar um hvernig Google notar fótspor og hvernig Google notar gögn, þar á meðal fótspor, þegar þú notar vefsvæði eða forrit frá samstarfsaðilum okkar.

Google reikningur

Þú getur fengið aðgang að tiltekinni þjónustu okkar með því að stofna Google reikning og veita okkur tilteknar persónuupplýsingar (yfirleitt nafn, netfang og aðgangsorð). Þessar reikningsupplýsingar eru notaðar til að sannvotta þig þegar þú opnar Google þjónustu og til að verja reikninginn þinn gegn óviðeigandi aðgangi annarra. Þú getur breytt eða eytt reikningnum þínum hvenær sem er í stillingum Google reikningsins.

Hlutdeildarfélög

Hlutdeildarfélag er eining sem tilheyrir fyrirtækjahópi Google, þar á meðal eftirfarandi fyrirtæki sem veita neytendaþjónustu innan ESB: Google Ireland Limited, Google Commerce Ltd, Google Payment Corp og Google Dialer Inc. Kynntu þér nánari upplýsingar um fyrirtæki sem veita viðskiptaþjónustu innan ESB.

IP-tala

Öll tæki sem tengjast internetinu fá úthlutað tölu sem kölluð er IP-tala. Þessum tölum er yfirleitt úthlutað í klösum á tiltekin landfræðileg svæði. Oft er hægt að nota IP-tölu til að greina staðsetningu tækis sem tengist internetinu. Nánar um það hvernig við notum staðsetningarupplýsingar.

Notkunarskrár netþjóna

Netþjónar okkar skrá sjálfkrafa beiðnir um síður þegar notendur kíkja á vefsvæðin okkar, eins og gert er á flestum vefsvæðum. Þessar „notkunarskrár netþjóna“ innihalda yfirleitt upplýsingar um vefbeiðni þína, IP-tölu, gerð vafra, tungumál vafra, dagsetningu og tíma beiðninnar og eitt eða fleiri fótspor sem kunna að auðkenna vafrann þinn.

Hefðbundin skráning í annál fyrir leit að „bílum“ lítur svona út:

123.45.67.89 - 25/Mar/2003 10:15:32 -
http://www.google.com/search?q=cars -
Chrome 112; OS X 10.15.7 -
740674ce2123e969
  • 123.45.67.89 er IP-talan sem netþjónusta notandans hefur úthlutað honum. Hugsanlega úthlutar netþjónustan ólíkri tölu í hvert skipti sem notandinn tengist internetinu, en slíkt fer eftir þjónustu notandans.
  • 25/Mar/2003 10:15:32 er dagsetning og tími beiðninnar.
  • http://www.google.com/search?q=cars er umbeðna vefslóðin ásamt leitarfyrirspurninni.
  • Chrome 112; OS X 10.15.7 er vafrinn og stýrikerfið sem er notað.
  • 740674ce2123a969 er einkvæma auðkenni fótsporsins sem var úthlutað þessari tölvu í fyrsta sinn sem hún heimsótti Google. (Notendur geta eytt fótsporum. Ef notandi hefur eytt fótspori úr tölvunni eftir síðustu heimsókn á Google, verður nýtt einkvæmt auðkenni notað fyrir næstu heimsókn notandans á Google úr þessu tiltekna tæki).

Ópersónugreinanlegar upplýsingar

Þetta eru upplýsingar um notendur sem eru skráðar á þann hátt, að þær tengjast ekki lengur né vísa í auðkennanlegan notanda.

Persónuupplýsingar

Þetta eru upplýsingar sem þú veitir okkur og auðkenna þig persónulega, til dæmis nafn, netfang, greiðsluupplýsingar eða önnur gögn sem Google getur með góðu móti tengt við slíkar upplýsingar, til að mynda þær upplýsingar sem við tengjum við Google reikninginn þinn.

Pixlamerki

Pixlamerki er tiltekin gerð af tækni sem komið er fyrir á vefsvæðum eða í tölvupósti til að rekja tilteknar aðgerðir, eins og skoðanir á vefsvæðum eða opnun á tölvupósti. Pixlamerki eru oft notuð ásamt fótsporum.

Reiknirit

Ferli eða reglur sem tölva fylgir við aðgerðir til að leysa vandamál.

Skyndiminni forritsgagna

Skyndiminni forritsgagna er gagnageymsla í tæki. Það getur til að mynda gert vefforriti kleift að vinna án nettengingar og bætt afköst forrits með því að gera hleðslu efnis hraðari.

Tilvísunarvefslóð

Tilvísunarvefslóð (vefslóð) eru upplýsingar sem vafri sendir til áfangasíðu, venjulega þegar þú smellir á tengil á þá síðu. Tilvísunarvefslóðin inniheldur vefslóð fyrir vefsíðuna sem vafrinn heimsótti síðast.

Tæki

Tæki er tölva sem nota má til að fá aðgang að þjónustu Google. Til dæmis teljast borðtölvur, spjaldtölvur, snjallhátalarar og snjallsímar öll vera tæki.

Vefgeymsla vafra

Vefgeymsla vafra gerir vefsvæðum kleift að geyma gögn í vafra á tæki. Þegar hún er notuð sem „staðbundin geymsla“ er hægt að vista gögn milli lota. Þannig er hægt að sækja gögnin jafnvel þótt vafranum hafi verið lokað og hann hafi verið opnaður aftur. Eitt dæmi um tækni sem býður upp á vefgeymslu er HTML5.

Viðkvæmar persónuupplýsingar

Hér er um að ræða tiltekinn flokk persónuupplýsinga sem tengjast atriðum á borð við trúnaðarupplýsingar um heilsufar, kynþátt eða þjóðerni, pólitískar skoðanir, trúarskoðanir eða kynhneigð.

Google forrit
Aðalvalmynd