Hvernig Google bregst við beiðnum stjórnvalda um upplýsingar um notendur
Opinberar stofnanir víða um heim biðja Google um að láta sér í té upplýsingar um notendur. Við förum vandlega yfir hverja beiðni til að tryggja að hún fari að gildandi lögum. Ef beðið er um of miklar upplýsingar reynum við að afmarka beiðnina og í sumum tilfellum leggjumst við gegn því að nokkrar upplýsingar séu veittar. Fjöldi og tegundir beiðna sem okkur berast koma fram í gagnsæisskýrslu okkar.
Viðbrögð okkar við beiðnum fara eftir því hver Google þjónustuaðili þinn er, sem í flestum þjónustum okkar er annaðhvort Google LCC, sem er bandarískt fyrirtæki sem starfar samkvæmt bandarískum lögum, eða Google Ireland Limited, sem er írskt fyrirtæki sem starfar samkvæmt írskum lögum. Þú getur komist að því hver þjónustuaðili þinn er með því að lesa þjónustuskilmála Google eða hafa samband við reikningsstjórnanda þinn ef umsjón Google reikningsins er í höndum stofnunar eða fyrirtækis.
Þegar okkur berst beiðni frá opinberri stofnun sendum við tölvupóst á notandareikninginn sem um ræðir áður en upplýsingar eru afhentar. Ef umsjón með reikningnum er í höndum stofnunar eða fyrirtækis fær stjórnandi reikningsins tilkynningu.
Engin tilkynning er send þegar slíkt er bannað samkvæmt lögum sem gilda um beiðnina. Þegar slíku banni lýkur, til dæmis að loknu lögbanni, er tilkynning send.
Ekki er tryggt að við sendum tilkynningu ef reikningurinn hefur verið gerður óvirkur eða ef honum hefur verið stolið. Einnig er ekki tryggt að við sendum tilkynningu í neyðaraðstæðum, svo sem ef öryggi barns er ógnað eða mannslíf er í hættu. Í slíkum tilvikum sendum við tilkynningu þegar við fáum upplýsingar um að neyðaraðstæðurnar hafi liðið hjá.
Beiðnir frá opinberum stofnunum í Bandaríkjunum í einkamálum, stjórnsýslumálum og sakamálum
Fjórði viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna og lög um friðhelgi einkalífsins í rafrænum fjarskiptum (ECPA-lögin) takmarka getu hins opinbera til að þvinga þjónustuveitur til að veita upplýsingar um notendur. Bandarísk yfirvöld verða að minnsta kosti að gera eftirfarandi:
- Í öllum tilfellum: Gefa út stefnu til að krefjast grunnupplýsinga um skráningu áskrifenda og tilteknar IP-tölur
- Í sakamálum
- Fá dómsúrskurð sem kveður á um afhendingu gagna sem ekki teljast til efnis, svo sem reitina „Til“, „Frá“, „Afrit“ og „Tími“ í tölvupósti
- Fá leitarheimild til að fá afhent innihald samskipta, svo sem tölvupóstskeyti, skjöl og myndir
Beiðnir frá opinberum stofnunum í Bandaríkjum í málum sem varða þjóðaröryggi
Ef um er að ræða rannsókn sem varðar þjóðaröryggi kann ríkisstjórn Bandaríkjanna að gefa út þjóðaröryggisbréf (NSL-stefnu) eða grípa til einnar af þeim heimildum sem veittar eru í lögum um eftirlit með eftirgrennslan um erlend öfl (FISA-lögunum) til að krefjast þess að Google veiti upplýsingar um notendur.
- NSL-stefna krefst ekki réttarheimildar og aðeins er hægt að nota slíka stefnu til að krefjast þess að við veitum takmarkaðar upplýsingar um áskrifendur.
- Hægt er að nota FISA-skipanir og -heimildir til að krefjast rafræns eftirlits og afhendingar geymdra gagna, þar á meðal efnis úr þjónustum á borð við Gmail, Drive og Myndir.
Beiðnir frá opinberum stofnunum utan Bandaríkjanna
Google LLC fær stundum beiðnir um afhendingu gagna frá opinberum stofnunum utan Bandaríkjanna. Þegar slík beiðni berst kunnum við að afhenda upplýsingar um notanda ef slíkt samræmist öllu af eftirfarandi:
- Bandarískum lögum, sem merkir að heimilt er að veita aðgang og upplýsingar samkvæmt gildandi lögum í Bandaríkjunum, svo sem lögum um friðhelgi einkalífsins í rafrænum fjarskiptum
- Lögum landsins þaðan sem beiðnin er send, sem merkir að við krefjumst þess að stofnunin veiti sömu sanngjörnu málsmeðferð og fylgi sömu lagaskilyrðum og ef beiðnin væri send til þjónustuveitu í viðkomandi landi sem veitir svipaða þjónustu
- Alþjóðlegum viðmiðum, sem merkir að við afhendum aðeins gögn þegar beiðni uppfyllir grundvallarreglur Global Network Initiative um tjáningarfrelsi og verndun einkalífs og leiðbeiningar um framkvæmd þeirra
- Reglum Google, sem felur í sér alla þjónustuskilmála og persónuverndarstefnur sem eru í gildi, auk reglna sem tengjast vernd tjáningarfrelsisins
Þar sem Google Ireland ber ábyrgð á því að veita flesta þjónustu Google á Evrópska efnahagssvæðinu og í Sviss tekur það einnig við beiðnum um upplýsingar um notendur.
Beiðnir frá opinberum stofnunum á Írlandi
Google Ireland tekur mið af írskum lögum við mat á beiðnum opinberra stofnana á Írlandi um upplýsingar um notendur. Samkvæmt írskum lögum þurfa írsk löggæsluyfirvöld að fá úrskurð frá dómstólum þar sem krafist er að Google Ireland afhendi upplýsingar um notendur.
Beiðnir frá opinberum stofnunum utan Írlands
Google Ireland býður notendum sem eru staðsettir á Evrópska efnahagssvæðinu og í Sviss upp á þjónustu og tekur stundum við beiðnum um upplýsingagjöf um notendur frá opinberum stofnunum utan Írlands. Í slíkum tilfellum kunnum við að gefa upp notendagögn ef slíkt samræmist öllu af eftirfarandi:
- Írskum lögum, sem merkir að heimilt er að veita aðgang og upplýsingar samkvæmt gildandi lögum á Írlandi, svo sem löggjöf um refsirétt á Írlandi.
- Lögum Evrópusambandsins (ESB) sem gilda á Írlandi, sem merkir öll lög Evrópusambandsins sem gilda á Írlandi að meðtalinni almennu persónuverndarreglugerðinni (GDPR).
- Lögum landsins þaðan sem beiðnin er send, sem merkir að við krefjumst þess að stofnunin veiti sömu sanngjörnu málsmeðferð og fylgi sömu lagaskilyrðum og ef beiðnin væri send til þjónustuveitu í viðkomandi landi sem veitir svipaða þjónustu
- Alþjóðlegum viðmiðum, sem merkir að við afhendum aðeins gögn þegar beiðni uppfyllir grundvallarreglur Global Network Initiative um tjáningarfrelsi og verndun einkalífs og leiðbeiningar um framkvæmd þeirra
- Reglum Google, sem felur í sér alla þjónustuskilmála og persónuverndarstefnur sem eru í gildi, auk reglna sem tengjast vernd tjáningarfrelsisins
Ef við höfum rökstuddan grun um að við gætum komið í veg fyrir mannslát eða alvarlegt líkamstjón kunnum við að láta opinberri stofnun í té upplýsingar, til dæmis ef um er að ræða sprengjuhótun, skotárás í skóla, mannrán, fyrirbyggingu sjálfsvígs eða mannshvarf. Við förum enn sem áður yfir þessar beiðnir með tilliti til gildandi laga og reglna okkar.