Þjónustuskilmálar Google Drive

Síðast breytt 10. desember 2018 Gildisdagsetning: 22. janúar 2019

1. Inngangur

Takk fyrir að nota Google Drive. Google Drive er þjónusta veitt af Google LLC („Google“, „við“ eða „okkur“), með aðsetur á 1600 Amphitheatre Parkway, Mountain View California 94043, Bandaríkjunum. Ef þú ert innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í Sviss er Google Drive veitt af Google Ireland Limited („Google“, „við“ eða „okkur“), fyrirtæki sem starfar samkvæmt lögum Írlands (skráð númer: 368047), með aðsetur í Gordon House, Barrow Street, Dublin 4, Írlandi. Þjónustuskilmálar Google Drive (sem við munum vísa til sem „skilmálar“) fjalla um notkun og aðgang þinn að Google Drive og efninu þínu á Google Drive. Persónuverndarstefna okkar útskýrir hvernig við söfnum og notum upplýsingarnar þínar, en notkunarreglur fjalla um skyldur þínar á meðan þú notar þjónustu okkar.

Þú þarft að samþykkja skilmálana til að nota Google Drive. Lestu þá vandlega. Ef þú skilur ekki skilmálana eða samþykkir ekki einhvern hluta þeirra ættirðu ekki að nota Google Drive.

2. Notkun þín á Google Drive

Aldurstakmarkanir. Til þess að nota Google Drive verðurðu að vera 13 ára eða eldri. Ef þú ert 13 ára eða eldri en yngri en 18 ára verðurðu að hafa leyfi foreldris eða forráðamanns til að nota Google Drive og til að samþykkja skilmálana.

Persónuleg notkun. Með því að samþykkja þessa skilmála samþykkir þú að nota ekki Google Drive í viðskiptatilgangi; þú mátt einungis nota þjónustu Drive í persónulegum tilgangi og ekki í hagnaðarskyni. Við mælum með því að fyrirtæki notist við GSuite.

Google reikningurinn þinn. Þú þarft Google reikning til að nota Google Drive. Haltu aðgangsorðinu þínu leyndu til að vernda Google reikninginn þinn. Þú berð ábyrgð á því sem fram fer á eða í gegnum Google reikninginn þinn. Reyndu að endurnýta ekki aðgangsorð Google reikningsins fyrir forrit þriðju aðila. Ef þú kemst á snoðir um óheimila notkun aðgangsorðsins þíns eða Google reikningsins skaltu fylgja þessum leiðbeiningum.

Framferði þitt. Ekki misnota Google Drive. Þú mátt einungis nota Google Drive eins og lög heimila, þar á meðal viðeigandi lög og reglugerðir varðandi útflutning og endurútflutning. Þú berð ábyrgð á framferði og efni þínu á Google Drive og þú verður að fara eftir notkunarreglum okkar. Við kunnum að fara yfir framferði og efni þitt á Google Drive til að athuga hvort það fari eftir skilmálunum og notkunarreglunum.

Google Drive er nú í boði á fartækjum. Ekki nota Google Drive þannig að það raski einbeitingu þinni og komi í veg fyrir að þú farir að umferðar- eða öryggisreglum.

Efnið þitt. Google Drive gerir þér kleift að hlaða inn, leggja fram, geyma, senda og taka á móti efni. Þú heldur eftir eignarhaldi á öllum hugverkaréttindum þínum varðandi það efni. Í stuttu máli sagt: Þú átt þitt efni áfram.

Þegar þú hleður inn, leggur fram, geymir, sendir eða tekur á móti efni með Google Drive veitirðu Google alþjóðlegt leyfi til að nota, hýsa, geyma, endurgera, breyta, skapa afleidd verk (t.d. þau sem verða til við þýðingu, aðlögun eða aðrar breytingar sem við gerum á efninu þínu svo að það virki betur með þjónustu okkar), senda út, birta, flytja opinberlega, birta opinberlega og dreifa slíku efni. Réttindin sem þú veitir með þessu leyfi eru í þeim takmarkaða tilgangi að starfrækja, kynna og bæta þjónustu okkar og þróa nýja. Þetta leyfi gildir áfram jafnvel þótt þú hættir að nota þjónustu okkar, nema þú eyðir efninu þínu. Gakktu úr skugga um að þú hafir nauðsynleg réttindi til að veita okkur þetta leyfi fyrir efni sem þú sendir Google Drive.

Deilingarstillingar á Google Drive gera þér kleift að stjórna því hvað aðrir geta gert við efnið þitt á Google Drive. Að sjálfgefnu ert þú stjórnandi alls efnis sem þú býrð til eða hleður inn á Google Drive. Þú getur deilt efninu þínu og fært stjórn á því yfir á aðra notendur.

Sjálfvirk kerfi okkar greina efnið þitt til að útvega þér vörueiginleika sem sniðnir eru sérstaklega að þér, t.d. sérsniðnar leitarniðurstöður og vörn gegn ruslpósti og spilliforritum. Þessi greining á sér stað þegar efni er móttekið, því er deilt, hlaðið inn og þegar það er vistað. Frekari upplýsingar um hvernig Google notar og vistar efni má finna í persónuverndarstefnu okkar. Ef þú sendir inn ábendingar eða tillögur varðandi Google Drive getum við notað ábendingar þínar eða tillögur án nokkurra skuldbindinga við þig.

Tilkynningar. Í tengslum við notkun þína á Google Drive kunnum við að senda þér þjónustutilkynningar, stjórnunarskilaboð og aðrar upplýsingar. Þú getur afþakkað sumar af þessum orðsendingum.

Google Drive þjónusta okkar. Notkun á Google Drive veitir þér ekki eignarhald á neinum hugverkaréttindum á Google Drive eða því efni sem þú færð aðgang að. Þú mátt ekki nota efni af Google Drive nema þú fáir leyfi frá eiganda þess eða sért með löglega heimild til þess. Þessir skilmálar veita þér ekki rétt til þess að nota nein vörumerki eða merki sem eru notuð á Google Drive. Ekki fjarlægja, hylja eða breyta neinum lagalegum skilmálum sem birtast á eða samhliða Google Drive.

3. Persónuvernd

Persónuverndarstefna Google útskýrir hvernig við förum með persónugögnin þín og stöndum vörð um persónuvernd þína þegar þú notar Google Drive. Með því að nota Google Drive samþykkir þú að Google má nota slík gögn samkvæmt persónuverndarstefnu okkar.

4. Höfundarréttarvörn

Við bregðumst við ábendingum um meint brot gegn höfundarrétti og lokum reikningum þeirra sem verða ítrekað uppvísir að brotum samkvæmt bandarískum höfundarréttarlögum.

Við veitum handhöfum höfundarréttar upplýsingar sem hjálpa þeim að hafa umsjón með hugverkum sínum á netinu. Ef þú telur að einhver sé að brjóta gegn höfundarrétti þínum og vilt tilkynna okkur það finnurðu upplýsingar í hjálparmiðstöð okkar.

5. Notkunarreglur

Við kunnum að fara yfir efni til að ákvarða hvort það sé ólöglegt eða brjóti gegn notkunarreglum okkar. Við gætum einnig fjarlægt eða neitað að birta efni sem við teljum, innan skynsamlegra marka, að brjóti gegn reglum okkar eða lögunum. Það merkir hins vegar ekki nauðsynlega að við förum yfir efni og skal því ekki gera ráð fyrir því að við gerum það.

6. Um hugbúnað í þjónustu okkar

Biðlarahugbúnaður. Með Google Drive fylgir biðlarahugbúnaður („hugbúnaður“) sem hægt er að hlaða niður. Þessi hugbúnaður getur uppfært sig sjálfkrafa í tækinu þínu þegar ný útgáfa eða eiginleiki er til staðar. Google veitir þér persónulegt, alþjóðlegt, gjaldfrjálst, óframseljanlegt og ótakmarkað leyfi til að nota hugbúnaðinn sem Google útvegar þér sem hluta af Google Drive. Þetta leyfi er veitt með þeim eina tilgangi að gera þér kleift að nota og njóta þess sem Google Drive býður upp á eins og það er veitt af Google í samræmi við þessa skilmála. Þú mátt ekki afrita, breyta, dreifa, selja eða leigja neinn hluta af Google Drive eða hugbúnaði þess og þér er einnig óheimilt að vendismíða eða reyna að sækja upprunakóða hugbúnaðarins, nema lög banni þessar takmarkanir eða þú hafir fengið skriflegt leyfi frá okkur.

Opinn hugbúnaðarkóði. Opinn hugbúnaðarkóði er okkur mikilvægur. Hluti þess hugbúnaðar sem Google Drive notar kann að vera veittur samkvæmt leyfi opins kóða, sem við munum veita þér. Í leyfi fyrir opinn hugbúnaðarkóða kunna að vera ákvæði sem hnekkja einhverjum af þessum skilmálum með beinum hætti.

7. Breytingar og uppsögn Google Drive

Breytingar á Google Drive. Við erum stöðugt að breyta og bæta Google Drive. Við kunnum að endurbæta afköst eða öryggi, breyta virkni eða eiginleikum eða gera aðrar breytingar í því skyni að framfylgja lögum eða hindra ólöglegt athæfi eða misnotkun á kerfum okkar. Þú getur skráð þig í áskrift að upplýsingum um Google Drive hér. Við tilkynnum mikilvægar breytingar á Google Drive sem við höfum ástæðu til að telja að hafi neikvæð áhrif á notkun þína á Google Drive. Aftur á móti getur komið fyrir að við þurfum að breyta Google Drive án þess að tilkynna það sérstaklega. Þetta verða einungis þau tilvik þar sem við þurfum að grípa til aðgerða til að tryggja öryggi og virkni þjónustunnar, hindra misnotkun eða þar sem við þurfum að framfylgja lagalegum skilyrðum.

Lokun og riftun. Þú getur hætt að nota Google Drive hvenær sem þú vilt, en okkur þætti miður að sjá á eftir þér. Við getum lokað á eða tímabundið gert aðgang þinn að Google Drive óvirkan ef þú brýtur töluvert eða ítrekað gegn skilmálum okkar eða notkunarreglum. Við munum senda þér tilkynningu áður en aðgangur þinn að Google Drive er gerður óvirkur eða lokað er á hann. Hins vegar gætum við lokað á eða gert aðgang þinn að Google Drive óvirkan án fyrirvara ef þú notar Google Drive á hátt sem gæti skapað okkur lagalega skaðabótaábyrgð eða truflað aðgang og notkun annarra notenda á Google Drive.

Lokun Google Drive. Ef við hættum að bjóða upp á þjónustu Google Drive munum við gera það með að minnsta kosti 60 daga fyrirvara. Á meðan á þessum fresti stendur hefurðu tækifæri til að sækja skrárnar þínar á Google Drive. Eftir að 60 daga tímabilinu lýkur muntu ekki hafa aðgang að skránum þínum. Við stöndum í þeirri trú að þú eigir skrárnar þínar og að mikilvægt sé að varðveita aðgang þinn að skránum. Leiðbeiningar um hvernig þú sækir skrárnar þínar má finna á support page.

8. Greiðslur og kaup á viðbótargeymslurými

Ókeypis geymsla. Google veitir þér 15 GB af ókeypis Google geymslurými á netinu (háð því að þú framfylgir þessum skilmálum), sem má nota með Google Drive, Gmail og Google myndum.

Kaup á viðbótargeymslurými. Þú getur einnig keypt viðbótargeymslurými („gjaldskyld geymsluáskrift“) eins og þér hentar. Við rukkum þig sjálfkrafa frá dagsetningunni þegar þú skiptir yfir í gjaldskylda geymsluáskrift og á hverjum degi endurnýjunar þar til áskriftinni er sagt upp. Til að kaupa gjaldskylda geymsluáskrift þarftu að samþykkja greiðsluskilmála eins og þeir eru tilgreindir í þjónustuskilmálum Google Payments. Ef þú ert ekki með reikning á Google Payments geturðu stofnað einn slíkan með því að opna þennan tengil, þar sem einnig má finna frekari upplýsingar um Google Payments. Þjónustuskilmálar Payments og upplýsingar um persónuvernd eiga einnig við þegar þú vilt kaupa gjaldskylda geymsluáskrift með Google Payments reikningi. Gakktu úr skugga um að þú hafir lesið þessa skilmála gaumgæfilega áður en nokkuð er keypt.

Uppsögn. Áskriftarleiðin sem þú greiðir fyrir verður í gildi þangað til hætt er við hana, hún er niðurfærð eða henni er sagt upp samkvæmt þessum skilmálum. Þú getur hætt við eða niðurfært áskriftarleiðina sem þú greiðir fyrir hvenær sem er í geymslustillingunum þínum á Google Drive. Uppsögnin eða niðurfærslan tekur gildi á næsta greiðslutímabili eftir að núverandi þjónustutímabil rennur út. Ef þú greiðir ekki fyrir gjaldskyldu áskriftarleiðina þína á tilskildum tíma áskiljum við okkur rétt til að niðurfæra reikninginn þinn og minnka geymslurýmið þitt niður í mörk gjaldfrjálsrar áskriftar. Við útskýrum uppsagnar- og endurgreiðsluferlið fyrir gjaldskyldu áskriftarleiðina þína í reglum um kaup, uppsögn og endurgreiðslu.

Breytingar á áskrift og verði. Við gætum breytt geymsluáskriftinni og verðlagningu hennar en munum tilkynna þér slíkar breytingar fyrirfram. Slíkar breytingar taka gildi að loknu núverandi þjónustutímabili, þegar komið er að næstu greiðslu eftir að tilkynningin hefur verið send. Við gefum þér að minnsta kosti 30 daga fyrirvara áður en greiðsla á sér stað ef verðið hækkar eða geymslurými áskriftarleiðar minnkar. Ef þú færð minna en 30 daga fyrirvara mun breytingin ekki gilda fyrir næstu greiðslu heldur taka gildi fyrir greiðsluna sem kemur þar á eftir. Ef þú vilt ekki halda áfram með uppfærða geymsluáskrift eða verð getur þú sagt upp eða niðurfært gjaldskyldu áskriftarleiðina hvenær sem er í geymslustillingum Google Drive. Uppsögn þín eða niðurfærsla mun gilda fyrir næsta innheimtutímabil eftir að núverandi tímabili lýkur og við munum áfram veita þér aðgang að skránum þínum eða gefa þér færi á að flytja skrárnar þínar af Google Drive.

9. Ábyrgð okkar og lagalegir fyrirvarar

Við útvegum Google Drive með þeirri getu og umsjón sem hægt er að búast við innan skynsamlegra marka og vonum að þú njótir þess að nota Google Drive. En það eru ákveðnir hlutir sem við getum ekki lofað varðandi Google Drive. Fyrir utan það sem er skýrt tekið fram tökum við ekki á okkur neinar skuldbindingar varðandi tiltekna virkni á Google Drive, áreiðanleika þess, tiltækileika þess eða getu þess til að sinna þörfum þínum.

10. Skaðabótaábyrgð Google Drive

Google, birgjar og dreifingaraðilar þess bera ekki ábyrgð eða skaðabótaábyrgð á:

(a) tapi sem átti sér ekki stað af völdum brota okkar gegn þessum skilmálum;

(b) neinu tapi eða skemmdum sem var ekki, á þeim tíma sem viðeigandi samningur við þig var gerður, með góðu móti hægt að sjá fyrir sem afleiðingu þess að Google bryti gegn skilmálunum; eða

(c) tapi sem tengist einhverjum viðskiptum þínum, þar á meðal töpuðum hagnaði, tekjum, tækifærum eða gögnum.

Heildarskaðabótaábyrgð Google, birgja og dreifingaraðila þeirra vegna allra krafna samkvæmt þessum skilmálum, þar á meðal fyrir alla óbeina ábyrgð, er takmörkuð við upphæðina sem þú greiddir okkur til að nota þjónustuna (eða, ef viðfangsefni kröfunnar er gjaldfrjáls þjónusta, við það að fá að nota þjónustuna aftur).

Ekkert í þessum skilmálum á að útiloka eða takmarka skaðabótaskyldu Google, birgja þeirra og dreifingaraðila vegna dauðsfalls eða meiðsla, svika, villandi og sviksamlegrar framsetningar eða nokkurrar skaðabótaábyrgðar sem má ekki útiloka samkvæmt lögum.

11. Lög sem stýra skilmálunum.

Ef þú býrð fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið eða Sviss gilda lög Kaliforníuríkis, Bandaríkjunum, að undanskildum reglum Kaliforníu um lagaárekstur, um allan ágreining sem upp kemur út af eða leiðir af þessum skilmálum eða Google Drive.Öll mál sem upp koma út af eða leiða af þessum skilmálum eða Google Drive verða einungis höfðuð fyrir alríkis- eða sýsludómstólum Santa Clara-sýslu í Kaliforníu, Bandaríkjunum, og bæði þú og Google samþykkið persónulega lögsögu þessara dómstóla.

Ef þú býrð innan Evrópska efnahagssvæðisins eða Sviss munu lög og dómstólar í heimalandi þínu gilda um öll mál sem upp koma út af eða leiða af þessum skilmálum eða Google Drive og þú getur flutt mál þitt frammi fyrir staðbundnum dómstólum.Hægt er að senda inn deilur til úrskurðar á netinu á vettvang framkvæmdastjórnar ESB fyrir lausn deilumála með rafrænni málsmeðferð á netinu (European Commission Online Dispute Resolution).

12. Um þessa skilmála

Við getum breytt þessum skilmálum eða öllum viðbótarskilmálum sem eiga við Google Drive, til dæmis: til að endurspegla breytingar á Google Drive eða á lögum, hefðum, pólitískri eða efnahagslegri stefnu; eða sem svar við reglugerðum sem reglugerðaraðilar eða viðeigandi iðnaðarsamtök setja; eða til að gera Google kleift að uppfylla skyldur sínar. Þú ættir að skoða skilmálana reglulega. Við munum birta tilkynningu á þessari síðu um breytingar á þessum skilmálum. Við munum birta tilkynningu um breytta viðbótarskilmála („viðbótarskilmálar“) í Google Drive og tilkynna þér fyrirfram mikilvægar breytingar á skilmálunum. Breytingar munu ekki gilda aftur í tímann og munu ekki gilda fyrr en 14 dögum eftir að þær eru birtar eða tilkynntar þér. Hins vegar munu breytingar sem varða nýja virkni eða eiginleika („ný þjónusta“) eða breytingar af lagalegum ástæðum gilda strax. Ef þú samþykkir ekki breytta skilmála fyrir nýja þjónustu ættirðu að hætta notkun þinni á nýju þjónustunni (sjá „uppsögn“ hér að ofan til að fá frekari upplýsingar).

Í þeim atriðum þar sem ósamræmi er milli þessara skilmála og viðbótarskilmálanna munu viðbótarskilmálarnir gilda.

Þessir skilmálar stjórna tengslunum milli Google og þín. Þeir skapa ekki nein réttindi þriðja aðila.

Ef þú fylgir ekki þessum skilmálum og við bregðumst ekki við þegar í stað merkir það ekki að við höfum afsalað okkur neinum réttindum (svo sem að bregðast við síðar).

Ef í ljós kemur að einhver hluti skilmála er óframfylgjanlegur hefur það ekki áhrif á aðra hluta skilmálanna.

Upplýsingar um hvernig er hægt að hafa samband við Google má finna á samskiptasíðunni okkar.